Réttarhöld v. skotárásar, Grindavík, kosningar í Rússlandi
Spegillinn - A podcast by RÚV
Categorie:
18. mars 2024 Réttarhöld vegna skotárásar í Úlfarsárdal í nóvember á síðasta ári hófust í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Árásin vakti bæði athygli og óhug en hana virðist mega rekja til hefndar fyrir rán. Sá eini sem særðist í árásinni gaf þó lítið upp um mögulegar ástæður þess að hann var skotinn og sagðist hvorki vita neitt né muna. Freyr Gígja Gunnarsson segir frá. Neyðarstigi almannavarna var lýst yfir þegar enn fór að gjósa í Sundhnúksgígum og hefur um sex ferkílómetra hraun komið upp. Hrauntunga fór yfir Grindavíkurveg aðfaranótt sunnudags og önnur nálgast Suðurstrandarveg. Hættuleg gasmengun mældist við orkuverið í Svartsengi og það var rýmt fyrr í dag. Þá voru þar fimm að störfum en þeir gátu snúið fljótlega aftur. Ásrún Helga Kristinsdóttir, forseti bæjarstjórnar í Grindavík segir að óvissan sem Grindvíkingar hafa búið við lengi sé farin að taka sinn toll, og hún upplifir ekki gos sem áhrifamikið sjónarspil. Anna Kristín Jónsdóttir ræðir við hana. Það fór eins og margan grunaði að Vladimír Pútín sigraði með yfirburðum í forsetakosningunum í Rússlandi í gær. Pólitískir andstæðingar hans voru hvort sem er ýmist í fangelsi, flúnir úr landi eða gengnir á vit feðra sinna. Kjörstjórn tilkynnti í dag að hann hefði fengið 87,28 prósenta fylgi. Mótframbjóðendur hans sem enginn man hvað heita fengu 4,31, 3,85 og 3,2 prósent. Ásgeir Tómasson segir frá.