Hérasmellir, saltfiskur á Hauganesi, Ólafsvallakirkja
Sögur af landi - A podcast by RÚV
Categorie:
Þátturinn byrjar á gamansömum nótum, enda hafa Íslendingar haft gaman af því að segja sögur, ekki síst af náunganum. Nokkuð hefur verið gert af því að skrásetja slíkar sögur og nýlega kom út bókin Hérasmellir sem geymir skondnar sögur af Héraðsmönnum. Rúnar Snær Reynisson hitti skrásetjara þessara sagna, Baldur Grétarsson bónda á Skipalæk í Fellum, og fræddist um litlu sögurnar sem gefa lífinu lit. Frá gamansömum Hérasmellum er ferðinni síðan heitið á Hauganes. Þar er á sumrin rekinn veitingastaður sem sérhæfir sig í saltfiskréttum, og nú þegar ferðamönnum þar hefur fækkað eftir sumarið, fer hefðundin saltfiskverkun í fullan gang. Þessi starfsemi er öll hjá fyrirtækinu Ektafiski, en þar hafa sömu aðferðir verið notaðar við saltfiskverkun í áratugi. Hægt er að fá allskonar tegundir af saltfiski í soðið, sem oft er búinn að liggja hálft ár í salti. Einnig eru þau hjá Ektafiski að þróa nýja afurð fyrir landbúnað úr afgangssalti sem hingað til hefur verið hent. Ágúst Ólafsson fór í heimsókn á Hauganes einn fallegan nóvembermorgun og ræddi við Elvar Reykjalín hjá Ektafiski. Að lokum forvitnumst við sögu Ólafsvallakirkju sem nú er verið að endurgera. Kirkjan er í Skeiða- og Gnúpverjahreppi og var byggð árið 1897. Hönnuður kirkjunnar var Kristinn Jónsson vagnsmiður en Samúel Jónsson frá Hunkubökkum á Síðu var yfirsmiður kirkjunnar. Ólafsvallakirkja var friðuð þann 1. janúar 1990. Rætt var við Jóhönnu Valgeirsdóttur, formann sóknarnefndar. Efni í þáttinn unnu Rúnar Snær Reynisson, Ágúst Ólafsson og Gígja Hólmgeirsdóttir. Umsjón: Gígja Hólmgeirsdóttir