Kissinger, netöryggi og ógnin af Rússum, dr. Sigurður Emil Pálsson
Heimsglugginn - A podcast by RÚV - Giovedì
Categorie:
Heimsgluggi vikunnar hófst á umræðu um Henry Kissinger, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sem er látinn 100 ára að aldri. Kissinger var ótvírætt meðal mestu áhrifamanna í alþjóðamálum á seinni hluta 20. aldar, hann var það sem kallað hefur verið realpolitiker, hafði lítinn áhuga á að tengja utanríkispólitík við mannréttindi eða skilyrða samskipti við aðrar þjóðir. Hann hafði frumkvæði að bættum samskiptum við Kínverja og þýðu í samskiptum við Sovétríkin. Kissinger var afar umdeildur, hann var þjóðaröryggisráðgjafi Richards Nixons Bandaríkjaforseta er Bandaríkjamenn færðu út hernað sinn í Víetnam-stríðinu. Kissinger hlaut Friðarverðlaun Nóbels árið 1973 ásamt Norður-Víetnamanum Le Duc Tho, fyrir að semja um frið í stríðinu. Sá síðarnefndi afþakkaði verðlaunin og Kissinger fór ekki til Óslóar til að taka við verðlaununum. Aðalefni Heimsgluggans var viðtal við dr. Sigurð Emil Pálsson. Hann er sérfræðingur í netöryggi og fjölþáttaógnum og starfar á vegum íslenska utanríkisráðuneytisins í Eistlandi hjá Öndvegissetri NATO um netvarnir. Bogi Ágústsson ræddi við hann um Öndvegissetrið; öryggismál; ógnina frá Rússum, innrás þeirra í Úkraínu; Eistland og breytingar sem hafa orðið þar. Sigurður Emil þekkir afar vel til í Eistlandi.