Úrslitahelgi Evrópumóts karla í handbolta
Hádegið - A podcast by RÚV
Categorie:
Úrslitahelgi Evrópumóts karla í handbolta er hafin. Spánn og Danmörk mætast í undanúrslitum í dag og Frakkland og Svíþjóð þar strax á eftir. Á sunnudaginn verður svo barist um bikarinn og bronsið. En nú klukkan 14.30 spilar Ísland við Noreg í Ungverjalandi um fimmta sætið á mótinu, eftir að öll von um að komast í undanúrslitin hvarf með tapleik Dana gegn Frökkum á miðvikudaginn. En það er enn til mikils að vinna. Því fimmta sætið veitir beinan farseðil á Heimsmeistaramótið í Póllandi og Svíþjóð á næsta ári og þýðir að liðið sleppir við undankeppni. Mótið hefur verið allskonar og mikið gengið á. Covid smit og fleiri Covid smit og óvissa, tæpt tap gegn Króötum og átakanlegur leikur Dana gegn Frökkum. Lægðirnar voru einhverjar en hæðirnar talsvert fleiri og árangur liðsins glæstur. Og enn er nóg eftir. Við byrjum þáttinn á örskýringu í boði Atla Fannars Bjarkasonar um leik Dana og Frakka og eftirköstin. En úrslit leiksins fóru öfugt ofan í þjóðarsálina og það sem byrjaði sem létt spaug snerist fljótlega upp í andhverfu sína þegar Danir tilkynntu að þeim hefðu borist líflátshótanir frá stuðningsfólki íslenska liðsins. Í seinni hluta Hádegisins ræðum við svo við Helgu Margréti Höskuldsdóttur íþróttafréttamann um leikinn sem er fram undan - baráttu Íslands og Noregs um fimmta sætið. Og förum yfir mótið - bæði það sem er búið af því og það sem eftir er. Hádegið er fréttaþáttur sem er á dagskrá alla virka frá 12 til 13 í umsjón Guðmundar Björns Þorbjörnssonar og Katrínar Ásmundsdóttur.