Inngangan í NATÓ og sársauki annarra
Hádegið - A podcast by RÚV
Categorie:
Við hefjum þáttinn á því að fjalla um ákveðin tímamót í íslenskri sögu. Í dag eru 73 ár frá því Ísland gekk í Atlantshafsbandalagið, NATÓ. Þann 30. mars 1949 samþykkti Alþingi Íslendinga að ganga í hið nýstofnaða varnarbandalag, og er Ísland því eitt af 12 stofnaðildarríkjum bandalagsins, sem í dag eru þau átján talsins. En innganga Íslands í NATÓ gekk ekki þrautalaust fyrir sig. Þótt þingheimur hafi samþykkt að Ísland skyldi vera aðili að bandalaginu var fjölda fólks hér á landi þvert um geð að herlaus þjóð skyldi ganga í hernaðarbandalag. Við rifjum upp inngöngu Íslands í NATÓ með Stefáni Pálssyni sagnfræðing, og meðlim í samtökum hernaðarandstæðinga. Það geisar stríð í Úkraínu. Úr öruggri fjarlægð horfum við fólk þjást. Við fáum fréttir og myndir af særðu fólki, myrtu, fólki á flótta, í átökum. Hver á nálgun okkar áhorfenda sem þekkja hvorki sverð né blóð að vera þegar við horfum úr öruggri fjarlægð á aðra þjást? Má loka augum fyrir neyð náungans? Hlífa sér með því að líta undan? Erum við líkleg til að grípa frekar til aðgerða ef við sjáum annað fólk þjást? Eða getum við orðið ónæm? Má velta þessu upp yfir höfuð? Við berum stórar spurningar undir Sólveigu Önnu Bóasdóttur, prófessor í guðfræðilegri siðfræði við Háskóla Íslands, í síðari hluta þáttarins. Hádegið er fréttaþáttur sem er á dagskrá alla virka frá 12 til 13 í umsjón Guðmundar Björns Þorbjörnssonar og Katrínar Ásmundsdóttur.